Afhent

+ Börnin átti níu í nauðum

Afhent

Göngu-Hrólfs rímur13. ríma, vísur 22 — 25

Börnin átti níu í nauðum næsta kvalin,
eg var þeirra elstur talinn.

Geitur margar Úlfur átti á Yggjar kvendi,
geymslu þeirra eg hafði á hendi.

Óspökum þeim erfitt spor eg eftir hvatti,
aðbúðin mig löngum latti.

Kvöld eitt síðla kom eg heim með kappi fúsu,
bar þá eld að bóndans húsum.

Vísur: Hjálmar Jónsson frá Bólu
Kvæðamaður: Sigurður S. Straumfjörð
Stemma: Úr Mýrarsýslu

+ Búi hafði búist nú þeim betri flíkum

Afhent

Jómsvíkingarímur5. ríma, vísur 48 — 50

Búi hafði búist nú þeim betri flíkum,
aldrei klæddist öðrum slíkum.

Tignarskrúða Haralds hafði hann í farið,
hvernig sem því var nú varið.

Tíu marka hattinn hans á höfði bar hann,
merkilegur á velli var hann.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Jón Sigurgeirsson á Tóvegg

+ Birta tekur, blæju svartri bregður gríma

Afhent

Veiðiför — gamanríma
Upphaf

Birta tekur, blæju svartri bregður gríma;
leggur inn um skjáinn skíma.

Þegar fjallabrúnir blána björtum degi,
sjómenn væran sofa eigi.

Á bera fætur bregð eg skóm og bind með þvengjum,
að lendum buxna lyfti strengjum.

Hleyp eg svo á hlaðið út og höfuð kerri,
nefið beint í norður sperri.

Einnig gægist út og suður alla vega,
geispa síðan geysilega.

Skyggnist eg um skýjafar og skima lengi,
veðragjósts hvort von sé engi.

Hann er svona þykkur og þunnur, þó með bakka,
éljadrög í jökulslakka.

Ef hann birtir eitthvað til og af sér gleður
slarkfært held eg verði veður.

Best mun því að búa sig, ef batna næði hann,
hleyp eg inn og hætti að bræða hann.

Eg býst við þeir æði á stað og ætli að róa;
láttu kaffið koma, Lóa!

Hvergi er eg hræddur hjörs í þrá, og hér er brókin,
vað eg tek og veiðikrókinn.

Vísur: Jón Thoroddsen
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Hjálmar Lárusson