Braghent

+ Upp í háa hamrinum

Braghent, frárímað

Ekkillinn

Uppi í háa hamrinum býr huldukona;
það veit enginn Íslendingur
annar en ég, hvað vel hún syngur.

Eitt sinn hvarf hann, ekkillinn frá Álfahamri;
það var ekki allt með felldu,
eftir því sem sumir héldu.

Leitað var hans út með á og upp við hamra.
En allir höfðu öðru að sinna,
og ekkilinn var hvergi að finna.

Löngu seinna sauðamaður sagðist hafa
heyrt hann glöggt á hljóðri vöku
í hamrinum kveða þessa stöku.

Vísur: Davíð Stefánsson frá Fagraskógi
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir
Stemma: Úr Eyjafirði. Jóhann Sveinsson frá Flögu

+ Man ég bjarta bæinn minn

Braghent, samrímað

Bærinn minn

Man ég bjarta bæinn minn frá bernskudögum,
þar sem rjáfrið söng af sögum,
sónargaldri, rímnalögum.

Pabbi sjálfur sat þar oft við sagnalestur.
Þróttur kvæða þótti mestur
þegar skemmti næturgestur.

Okkur bræðrum iðja gafst sem öðrum þjónum.
Löngum amma laut að prjónum,
lagði mamma hönd að skónum.

Það sem bezt í brjósti mínu bærast kunni
drakk ég allt úr einum brunni:
iðjuríku baðstofunni.

Vísur: Steinn Sigurðsson
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson
Stemma: Víða kunnug í Húnavatnssýslu

+ Meðan aðrir una sér

Braghent, baksneitt

Úr ljóðabréfi til trésmíðameistara Jóns Halldórssonar á jóladag 1918

Meðan aðrir una sér við ys og glauminn,
mitt er orðið elligaman
eina stöku’ að fella saman.

Ég á hrafl af hljómbrotum á hugans strengjum,
sem ég reyni að túlka’ á tungu
til að létta skapi þungu.

Margt er þar í muna geymt af mörgu tagi,
minningar úr heimahögum
hvarfla þar frá liðnum dögum.

Mörg ein vonin var þá hlý og vökudreymin
út í lífsins geisla-geima
gaman var þá oft að sveima.

Vísur: Sveinbjörn Björnsson
Kvæðamaður: Sigurður S. Straumfjörð (kenndi og kvað)
Stemma: Úr Mýrasýslu

+ Högni laut en hauðrið flaut

Braghent, skjálfhent

Rímur af Andra jarli5. ríma, vísur 72 — 75

Högni laut en hauðrið flaut í hrugnis blóði:
eitthvað tautar Andri í hljóði,
óð sem naut að stála rjóði.

Yfir herðar höggur sverði halsins snjalla,
hér við verður Högni falla,
hann þó gerði særast varla.

Skyrtan góða skýldi móðum skjóma runni,
hrökk þá blóð af Högna munni,
hann uppstóð sem fljótast kunni.

Vitið missti, heiftin hristi hringa njótinn,
Andra lysti launa hótin,
lamdi byrstur kylfu á þrjótinn.

Vísur: Hannes Bjarnason á Ríp
Kvæðamaður: Magnús Pétursson (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Sveinn Jóhannesson á tólffótunum

+ Lauk ég seinast ljóðin við

Braghent, baksneitt

Rímur af Reimari og Fal enum sterka12. ríma, vísur 14 — 17

Lauk ég seinast ljóðin við þar lundar fleina
út á hólminn áttu að flana,
eldsglóðina reyna grana.

Reimar Jannes renndi mót með rögniseldi,
höggið greiddi hrottinn gildi,
hljóp í loftið kóngsson mildi.

Hjörinn þá, sem hrikinn reiddi hyggjuvondur
sökk í jörð, en jöfurskundur
jólnis reiddi sala tundur.

Höggið drífa halurinn lét á hjálmsins bungu,
beittri meður benjaslöngu
bófann klauf að endilöngu.

Vísur: Hákon Hákonarsson, Brokey
Kvæðamaður: Magnús Sigurðsson
Stemma: Magnús Sigurðsson

+ Það er hægt að hafa yfir heilar bögur

Braghent, baksneitt

Það er hægt að hafa yfir heilar bögur án þess rímið þekkist;
þegar þær eru nógu alþýðlegar.

Númarímur9. ríma, vísur 39 — 46

Vagn á undan fylking fer með fegurð góða,
inní honum hafa næði
Hersilía og Númi bæði.

Vill nú enginn óska sér af ungum sveinum,
sem að ásta unna konum,
að eiga sessinn líkan honum?

Það mun ekki leiðinlegt, að líkum, vera,
fögur þegar faðma kæra,
að falla í hennar arma væra.

Þegar ég tók í hrunda hönd, með hægu glingri,
fannst mér þegar eg var yngri
eldur loga á hverjum fingri.

Þegar eg lagði hægast hönd um háls á svanna,
allar gegnum æðar renna,
ástin fannst mér þá, og brenna.

Þegar mátti eg falla í faðm á fljóði ungu,
vissi eg ekkert um mig lengur;
aðrir skynja þá hvað gengur.

Af öllu þessu er mér ljóst, að ungur Númi
hefur ei vitað hót af ama;
um hana mætti trúa sama.

Hvað þau bæði þenktu þá og þuldu bæði,
það kemst ekki í þetta kvæði
þó það á mínu lífi stæði.

Vísur: 1. Andrés Björnsson, 2. Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Þorbjörn Kristinsson
Stemma: Af ókunnum uppruna.

+ Sólskríkjan mín situr þarna á sama steini

Braghent, baksneitt

Sólskríkjan

Sólskríkjan mín situr þarna á sama steini
og hlær við sínum hjartans vini,
honum Páli Ólafssyni.

Vísa: Páll Ólafsson
Kvæðamaður: María Bjarnadóttir
Stemma: Bjarni Jónsson frá Akranesi

+ Sittu heil með háan fald við heiðan boga

Braghent, baksneitt

Úr Ljóðabréfi

Sittu heil með háan fald við heiðan boga,
vor og ljós um völl og haga,
vatnahljóð og langa daga.

Nú kemst ekki nóttin lengra en neðst í dalinn,
meðan blessuð sumarsólin
sveigir fyrir norðurpólinn.

Fuglinn syngur blí blí blí um bláa geiminn,
niðar foss við nýju blómin —
nú er öllu létt um róminn.

Móður sinnar örmum í þeir alla daga
og á kvöldin kveða mega
kvæðin bestu, sem þeir eiga.

Allt má komast í þinn faðm, sem er á vængjum,
syngja á túnum, syngja á engjum
sumarljóð á hvellum strengjum.

Eftir mega á ýmsum ströndum augu vera,
sem að þreytt og þrútin stara,
þegar aðrir norður fara.

Honum, sem á hugann enn og hjartað sama,
máttu þó ei, móðir, gleyma,
meðan aðrir syngja heima.

Langt í burt á lágri strönd hann ljóðin flytur
og á strenginn leika lætur
læki þína og sumarnætur.

Vísur: Þorsteinn Erlingsson
Kvæðamaður: María Bjarnadóttir
Stemma: Sigríður Hjálmarsdóttir frá Haugsnesi

+ Sólin ekki sinna verka sakna lætur

Braghent, samrímað

Sólin ekki sinna verka sakna lætur.
Jörðin undan grímu grætur.
Grasabani, komdu á fætur.

Ef þú hefur heiftarlund við heilög stráin,
nú þar dagsins birtir bráin,
berðu að þeim hvassa ljáinn.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Flosi Bjarnason
Stemma: Bjarni Jónsson frá Akranesi

+ Á ég að halda áfram lengra eða hætta

Braghent, baksneitt

NúmarímurMansöngur 9. rímu

Á eg að halda áfram lengra eða hætta
og milli Grænlands köldu kletta
kvæðin láta niður detta?

Nú vill ekkert kvenna kyns að kvæðum sækja;
stunda ei eftir stefja bókum
stúlkurnar á selskinnsbrókum.

Karlmennirnir kunna ekki kvæða málið,
ætli það sé þá ekki galið
að eg lengi kvæða skjalið?

Hér á milli hárra fjalla eg háttu tóna,
heyri því í huldum steina
hundrað raddir fyrir eina.

Laglega í logni fjöllin ljóð fram bera;
mig ef fá til forsöngvara
fús eru þau til endursvara.

Viðskiptin mér við þau falla vel í þokka,
meðan eg heyri buldra bekki
bragar strengir þagna ekki.

Ef eg þagna elfur máske ísum klæðist;
fjöllunum mínum líka leiðist
ljóða þegar söngur eyðist.

Kæmist loksins kvæðið heim að Klakalandi
svo aukið gæti glaum og yndi
gullhrings týr og sörfa lindi.

Veit eg, stúlkur! yður enn að óði dragið
og þó lágt með ykkur segið:
„Enn þá lifir Breiðfjörð greyið.“

„Þekktir þú hann?“ aðspyr ein, en önnur segir:
„Ójá, grannt að öllu tagi,
oft var hann á ferðalagi.

Sannast var að sopinn þótti Sigga góður!
Kallaður var hann kvennamaður,
sem kannske hefur verið slaður.

Kænlega mátti komast hjá hans kvennaragi;
við það laus hann var þó eigi,
verði mér aldrei, það eg segi.

Raun var mér og mörgum, að hans miklu drykkju,
meðan hann var hér á flakki
hélt hann áfram slíku svakki.

Mikið hann af munni orkti máta glaður,
skemmtilegur, en skjaldan reiður,
skilið á hann þennan heiður.“

Þyki mér ekki þarfleg vera þessi ræða,
eyrum fyrir að þylja þjóðar,
þagnið þið heldur, stúlkur góðar!

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Sveinn Jóhannesson á tólffótunum

+ Illa er mér við eiturlæk á Arnarstapa

Braghent, baksneitt

Af Eiturlækjar-vísum

Illa er mér við Eiturlæk á Arnarstapa.
Honum makleg hæfir sneypa.
Heillum margra vill hann steypa.

Undirförull ofanjarðar ekki flýtur,
utan þar sem bergið brýtur,
bruna fram í sjóinn hlýtur.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi
Stemma: Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi