Stikluvik

+ Höggið brýtur handlegginn

Stikluvik, þríhent, vikframsneitt / vikframhent

Rímur af Gunnari á Hlíðarenda4. ríma, vísur 51 — 54

Höggið brýtur handlegginn,
hót þá bítur eigi.
Nauðum flýta nennir hinn,
niður hrýtur arngeirinn.

Gunnar þrífur hann og hjó
Hallgrím allan gegnum.
Út þar lífi undin spjó,
í einu fífutýrinn dó.

Gunnar kvað svo ljóð: Hér lét
lífið stífin hetja,
sannast það er seiðmann hét.
Sáranað ég góðan met.

Hér nú kenndu höldar skil
hvar ég geiri náði,
þann í hendi hafa vil
héðan af enda lífsins til.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (kenndi og kvað)
Stemma: Siglufjarðarlag

+ Í kóngahöllum kviðurnar

Stikluvik, þríhent

Rímur af Gunnari á Hlíðarenda4. ríma, vísur 6 — 8 og 11

Í kóngahöllum kviðurnar
kempum fram að bera
leikum öllum vænna var
af virðum snjöllum metið þar.

Eftir ljóða búinn brag
brjóstið hresstist stóra,
síðan óðu út í slag
eggja blóðugt sungu lag.

Um þeirra gæði þrótt og vörn
þagnar ekki kvæði
meðan fæðast bragarbörn
bjóða fræðin söngvagjörn.

Eins og græðis fellur flóð
flatar grundir yfir
út um flæði Ísalóð
öll mín kvæði og gleðji þjóð.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Kjartan Ólafsson (Gunnar Guðnason á Esjubergi kenndi)
Stemma: Úr Þingeyjarsýslu. Sigurbjörn Jóhannsson á Fótaskinni

+ Nadda þórar nefndu þar

Stikluvik, þríhent

Rímur af Andra jarli1. ríma, vísur 54 — 57

Nadda þórar nefndu þar,
Nóatúnin austur,
jarlar fjórir fundust þar,
feikna stórir skelmirar.

Þeirra faðir Þrymur hét,
þengill Jötunheima,
lýð þeir skaða hjörs við hret,
hver þeim maður undan lét.

Hétu Ljótur, Þrándur þar,
Þráinn má svo nefna,
harðari grjóti haus hver bar,
holdið sóti líkast var.

Grenjuðu voða hljóð með há,
hömuðust ramir bófar,
vall þeim froða vitum frá,
voru þeir hroðalegir þá.

Vísur: Hannes Bjarnason á Ríp
Kvæðamaður: Sigríður Hjálmarsdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Björn Stefánsson, Kirkjuskarði

+ Suður með landi sigldu þá

Stikluvik, hringhent

Rímur af Hálfdani konungi11. ríma, vísur 11 — 14

Suður með landi sigldu þá
söng í bandi reiða
var blásandi byrinn á
börvum randa vel á lá.

Hrafnar undan hertu flog
höfrungs sunda ljónum,
gjalla mundu ærið, og
eftir dundu strauma sog.

Þar á trygli þóftu stár
Þengill siglu viður;
randa myglu mælti Hár,
mar þótt ygli brún óklár:

„Ernir leggja víst á val
vorn í hreggi skjóma,
bráðum Eggjum-skarpi skal
skýfa seggja hugar dal.“

Vísur: Hannes Bjarnason á Ríp
Kvæðamaður: Þuríður Friðriksdóttir (Anna Bjarnadóttir kenndi)
Stemma: Úr Húnavatnssýslu. Stefán Guðmundsson á Kirkjuskarði

+ Dísir ljóða! dugið mér

Stikluvik, þríhent, vikframsneitt / vikframhent

Rímur af Víglundi og Ketilríði7. ríma, upphaf

Dísir ljóða! dugið mér,
dáð svo kvæðum fylgi,
meðan þjóð á mæri hér
mínir bjóðast söngvarnir.

Mitt var yndi áður það
ungri tungu að leika,
stökur mynda og mála blað,
manna hrinda þögn úr stað.

Lysting snör í brjósti brann,
að bála málin kvæða;
líka fjör þá lána vann
lifandi gjörvöll náttúran.

Þegar spjöllin hátta há
hinir vinir sungu,
var sem fjöllin háu hjá
á hljóðum öllum stæðu þá.

Vísur: Sigurður Breiðfjörð
Kvæðamaður: Jóhann Garðar Jóhannsson
Stemma: Úr Breiðafirði

+ Dísin óðar himins hlín

Stikluvik, hringhent

AlþingisrímurMansöngur 1. rímu

Dísin óðar, himins hlín,
hell mér glóð í blóðið;
eg í ljóðum leita þín,
líttu, góða, í náð til mín.

Hertu strengi hörpunnar,
háa ljá mér tóna;
syngdu um drengi sögunnar
sætt og lengi um vökurnar.

Herjans kera kneyfi eg bjór,
kalla á allar vættir;
mögnum hér vorn kvæðakór
um kappa er bera völdin stór.

Eg vil syngja óðinn minn,
æðin blæði Kvásis,
um vort þing í þetta sinn
með þróttarslyngu afrekin.

Vísur: Úr Alþingisrímum
Kvæðamaður: Ragnheiður Magnúsdóttir
Stemma: Úr Skaftafellssýslu

+ Landsynningur leiður er

Stikluvik, hringhent

Landsynningur leiður er,
lýir hann fingur mína,
barnaglingur ekkert er,
í honum syngur, heyrist mér.

(í honum syngur, syngur þá,
í honum syngur, syngur,
í honum syngur, syngur þá,
í honum syngur, heyrist mér).

Vísa: Eftir óþekktan höfund
Kvæðamaður: Ingþór Sigurbjörnsson
Stemma: Sigurður Jónsson í Hindisvík

+ Grenjuðu voða hljóð með há

Stikluvik, þríhent, vikframsneitt

Rímur af Andra jarli1. ríma, vísur 56 — 63

Hétu Ljótur, Þrándur þar,
Þráinn má svo nefna,
harðari grjóti haus hver bar,
holdið sóti líkast var.

Grenjuðu voða hljóð með há,
hömuðust ramir bófar,
vall þeim froða vitum frá,
voru þeir hroðalegir þá.

Enginn brandur bíta kann,
bræður hræðilega;
fjórði Andri vera vann,
versti fjandi þótti hann.

Nasaflár og úteygður,
ekkert hárið bar hann,
andlitsblár og biksvartur
á búkinn, sára munnljótur.

Kjaftinn þandi kolsvartan
kampurinn tók á bringu;
enginn brandur bíta kann
berserk Andra hamraman.

Aldrei bar hann hjálm né hlíf
(harður var hann kallinn)
með hamfari hjörs við dríf,
hölda sparar þegi líf.

Ofsa digur aulinn var,
öllum tröllum hærri,
hann þó vigur vænan bar
voðaligu skelfingar.

Gapti slinni, glóðrauðar
glórði í hvarma týrur;
hlýra sinna verstur var,
vonsku stinnur, dyggða spar.

Vísur: Hannes Bjarnason
Kvæðamaður: Ingimann Ólafsson
Stemma: Sigfús Sigfússon

+ Lífið gerist þungt og þreytt

Stikluvik, hringhent

Lífið gerist þungt og þreytt
þegar fer að elli.
Fleira er en funi heitt,
fleira sker en járnið beitt.

Vísa: Flóvent Jónsson
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Steingrímur Baldvinsson

+Yfir hæðir, hálsa og fjöll

Stikluvik, hringhent

Glæsiserfi
Upphaf

Óðinn gramur Ása reið
auðnusamur heiman,
slyddum tamur sletti á skeið,
Sleipnir ramur hvergi beið.

Yfir hæðir, hálsa, fjöll
hlaupi gæðings prýddur
jórinn æðir meir en mjöll,
mildings klæðin þöndust öll.

Loks að háum hömrum bar
Hliðskjálfs knáan sjóla,
býli sá í bergið þar,
bauga Gná í dyrum var.

Hét Sybilla, stolt og stíf,
stássi og gylling drifin,
goðanna frilla grönn um líf;
gisting stilli býður víf.

Kóngur þekkist blíðu boð,
bragðið ekki skilur;
hann í rekkju vafinn voð
værðir fékk og svefna doð.

Vísur: Hjálmar Jónsson frá Bólu
Kvæðamaður: Margrét Hjálmarsdóttir
Stemma: Þorleifur Jónsson á Blönduósi

+ Beisla hundur holdið raums

Stikluvik, hringhent

Einar og Rauður
Reiðmannsvísur

Eg sá ríða ungan mann
undir hlíðum fjalla,
korða fríðan knýi þann
krýndi blíða hamingjan.

Loftið gnúði gnýr órór,
Gauts á brúðar maga
moldar úða mökkur stór
manni spúði á rauðum jór.

Leystir steinar glymja gnauð,
gneistum hreinum spýta,
þar sem Einar ríður Rauð,
Rögnis kveinar beðjan auð.

Ungur folinn, efldur, knár
allan bolinn teygir,
jörðu molar jarkinn frár,
járnið holað undir stár.

Beisla hundur holdið raums
hófum undan rífur,
þá sprækur lundur spjótaglaums
spennir mund að ólum taums.

Fjörs ókyr með ferða skraut,
fjalls úr dyrum sloppinn,
aftur fyrir skutinn skaut
skötnum fyr á reiðar braut.

List af hárri lofstír dró,
ljóni knárri fundinn,
hirti frárri flumbrar mó,
fílnum skárri að visku þó.

Fjörs öflugur skeiðs um skrið
skerpir dug og sinni,
yfirbugan fær ei frið,
fætur huga kepptust við.

Gegnum strauma, fen og flár
fíllinn tauma rennur,
teygir úr saumum kroppur knár,
keðjuglaumur syngur hár.

Þekkist Einar öðrum frá
ungum fleina rjóðum,
gæðings hreinum gangi á
glaður sveinaflokki hjá.

Garpur enginn nái nær
nýtum dreng á spretti,
knör þá vengis rauðum rær
og reiðarstrengur makkann slær.

Vísur: Hjálmar Jónsson frá Bólu
Kvæðamenn: Jónbjörn Gíslason og Júdit Jónbjörnsdóttir
Stemma: Stefán Guðmundsson